Erlent

Trump tilnefnir nýjan mann í stól seðlabankastjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Donald trump Bandaríkjaforseti og Jerome Powell.
Donald trump Bandaríkjaforseti og Jerome Powell. Vísir/AFP
Líkt og búist hafði verið við þá tilnefndi Donald Trump Bandaríkjaforseti Jerome Powell í stól seðlabankastjóra Bandaríkjanna í gær. Búist er við að hinn hinn 64 ára Powell taki við stjórnartaumunum í bankanum þegar Janet Yellen hættir í febrúar næstkomandi.

Powell er menntaður lögfræðingur og hefur átt sæti í stjórn bandaríska seðlabankans frá árinu 2012. Hann hefur greitt atkvæði með meirihluta stjórnar í málum sem snúa að vaxtaákvörðunum og er búist við að hann muni viðhalda núverandi stefnu seðlabankans og lítillega hækka vexti í skrefum, að því er fram kemur í frétt BBC.

„Ég er viss um að Jay [Jerome] búi yfir viskunni og leiðtogahæfninni til að leiða efnahag okkar í gegnum alls kyns áskoranir,“ sagði Trump þegar hann kynnti val sitt í gær.

Powell sagði á sama fréttamannafundi að efnahagur Bandaríkjanna hafi batnað frá fjármálakrísunni, auk þess að hann hét því að taka hlutlægar ákvarðanir sem byggðu á þeim gögnum sem fyrir lægju.

Hin 71 árs gamla Yellen hefur setið í stóli seðlabankastjóra í fjögur ár og er fyrsta konan til að gegna embættinu. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna hefur vanalega setið fleiri en eitt skipunartímabil, en Trump hefur sagt að hann vilji setja spor sín á bankann. Trump þakkaði Yellen fyrir störf sín í gær og sagði hana hafa staðið sig frábærlega.

Fastlega er búist við að öldungadeild Bandaríkjaþings samþykki skipun Powell.

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað á miðvikudag að halda vöxtum óbreyttum, en reikna sérfræðingar með að vextir verði hækkaðir fyrir árslok.

Powell er vellauðugur og starfaði á árum áður í Carlyle Group, einu af stærstu fjárfestingafélögum heims. Barack Obama skipaði hann í stjórn seðlabankans árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×