Erlent

Milljónir tísta frá rússneskum reikningum fyrir kosningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Twitter bendir á að tístin frá rússnesku reikingunum hafi aðeins verið prósentubrot af öllum tístum sem birtust á miðlinum í aðdraganda kosninganna.
Twitter bendir á að tístin frá rússnesku reikingunum hafi aðeins verið prósentubrot af öllum tístum sem birtust á miðlinum í aðdraganda kosninganna. Vísir/Getty
Yfir þrjátíu þúsund Twitter-reikningar sem tengjast Rússlandi dældu út 1,4 milljónum tísta á lokakafla kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum í fyrra. Aðrir notendur Twitter líkuðu við tístin, svöruðu þeim eða deildu 288 milljón sinnum.

Fulltrúar Twitter eru sagðir ætla að kynna bandarískri þingnefnd sem rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum þessar tölur í vikunni.

Þær benda til þess að umsvif Rússa á samfélagsmiðlinum í aðdraganda kosninganna hafi verið mun meiri en stjórnendur Twitter hafa áður viljað láta í veðri vaka. Upphaflega hafði Twitter aðeins sagst hafa fundið rúmlega tvö hundruð reikningar sem tengdust Rússum.

Tístin voru send út á tímabilinu 1. september til 15. nóvember í fyrra en forsetakosningarnar fóru fram 8. nóvember. Þau eru sögð hafa verið framleidd sjálfvirkt og tengd kosningunum, að því er segir í frétt Business Insider.

Twitter bannaði rússnesku fréttastofunum RT og Spútnik að auglýsa á samfélagsmiðlinum í síðustu viku. Taldi fyrirtækið að fjölmiðlarnir hefðu brotið reglur miðilsins um auglýsingar með efni sem tengdist kosningunum.

Fyrr í morgun greindi Vísir frá því að fulltrúar Facebook áætli nú að hátt í helmingur Bandaríkjamanna, um 126 milljónir manna, hafi séð pólitískan eða félagslegan áróður sem rússneskir reikningar dreifðu síðustu tvö árin. Það eru einnig mun meiri umsvif rússneskra útsendara þar en áður hefur komið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×