Erlent

Rússaáróðurinn barst til helmings kjósenda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tilraunir Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra eru í fullum gangi.
Tilraunir Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra eru í fullum gangi. Vísir/AFP
Facebook telur að allt upp í 126 milljónir Bandaríkjamanna, næstum helmingur allra kjósenda, hafi séð áróður frá útsendurum Rússa á samfélagsmiðlinum á síðustu tveimur árum.

Samkvæmt nýrri úttekt telur Facebook að alls hafi þeir hlaðið upp um 80 þúsund færslum fyrir og eftir forsetakosningarnar vestanhafs í fyrra.

Flestar færslurnar innihéldu efni eða skilaboð sem teljast mætti til pólitísks eða félagslegs áróðurs.

Fulltrúar samfélagsmiðlisins munu funda með rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar, ásamt talsmönnum Google og Twitter, þar sem framganga Rússa á netinu í aðdraganda kosninganna verður rædd.

Þeir hafa ætíð neitað ásökunum um að hafa reynt að hafa áhrif á kosningarnar eða að hafa dregið taum Donalds Trump, þess sem bar sigur úr býtum.

Færslurnar 80 þúsund birtust frá júní 2015 fram í ágúst 2017. Facebook segir að færslunum hafi verið hlaðið upp af starfsmönnum rússnesks fyrirtækis með tengsl við stjórnvöld í Kreml.

„Þessi framganga gengur þvert gegn tilraunum Facebook til að skapa samfélag og öllu því sem við stöndum fyrir. Við erum ákveðin í að bregðast við þessari nýju ógn,“ er haft eftir háttsettum starfsmanni Facebook.


Tengdar fréttir

Forsvarsmenn Twitter svara spurningum þingmanna

Meðal annars munu þingmennirnir spyrja hvort að Twitter hafi verið notað af Rússum til að dreifa fölskum upplýsingum sem ætlað var að skaða framboð Hillary Clinton.

Pútín neitaði að hafa hakkað kosningarnar í Bandaríkjunum

Bandaríkjastjórn og Rússar einbeita sér að því að horfa fram á veginn eftir ásakanir um afskipti þeirra síðarnefndu af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að Trump og Pútín hafi átt "kröftugar“ umræður um tölvuárásir Rússa á fundi þeirra í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×