Enski boltinn

Zlatan: Ég er kominn aftur til að vinna ensku deildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic með Evrópudeildarbikarinn.
Zlatan Ibrahimovic með Evrópudeildarbikarinn. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic færist nær því að geta spilað aftur fótbolta en sænski framherjinn sleit krossband á síðustu leiktíð þegar hann var í miklu stuði með United-liðinu.

Mörk Zlatans hjálpuðu United að vinna Samfélagsskjöldinn, Evrópudeildina og deildabikarinn en hann vill vinna ensku úrvalsdeildina.

Svíinn náði að sannfæra José Mourinho um að halda sér hjá félaginu en hann fékk nýjan eins árs samning þrátt fyrir að vera alvarlega meiddur og líklega ekki klár fyrr en á nýju ári.

„Ég er kominn aftur til að klára það sem ég var byrjaður á og það sem ég var búinn að byggja upp á fyrstu leiktíðinni hérna. Vissulega unnum við þrjá titla en þetta endaði ekki eins og ég vildi hafa það,“ segir Zlatan í viðtali við Sky Sports.

„Markmiðið var að vinna ensku úrvalsdeildina. Þannig ætla ég að klára þetta. Það sem ég byrjaði á að gera á fyrstu leiktíð minni munum við klára núna á leiktíð númer tvö,“ segir Zlatan Ibrahimovic.

Manchester United er fimm stigum á eftir Manchester City eftir fyrsta tap leiktíðarinnar um síðustu helgi gegn Huddersfield en United mætir Tottenham í hádegisleiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×