Erlent

Fyrstu ákærurnar í Rússarannsókninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Mueller hefur sjálfur verið þögull sem gröfin frá því að hann tók við rannsókninni eftir að Trump rak James Comey sem forstjóra FBI í vor.
Mueller hefur sjálfur verið þögull sem gröfin frá því að hann tók við rannsókninni eftir að Trump rak James Comey sem forstjóra FBI í vor. Vísir/AFP
Ákærudómstóll í Washington-borg hefur samþykkt fyrstu ákærurnar í rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, í tengslum við rannsókn hans á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra, að sögn CNN.

Í frétt CNN kemur fram að ákærurnar séu enn ekki opinber gögn. Handtökur gætu hins vegar átt sér stað strax eftir helgi. Ekki er ljóst fyrir hvað er ákært. Talsmaður Mueller neitaði að tjá sig um þær.

Mueller rannsakar tilraunir rússneskra stjórnvalda til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra og einnig hvort að þau hafi átt í samráði við forsetaframboð Donalds Trump.

Hann var skipaður í kjölfar þess að Trump rak James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI. Trump sagði sjálfur í viðtali eftir á að ástæðan hafi verið rannsókn FBI á meintu samráði hans við Rússa þrátt fyrir að dómsmálaráðuneyti hans hafi borið fram allt aðra skýringu í rökstuðningi sínum fyrir brottrekstrinum.

Vitað er að teymi Mueller hefur rannsakað Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump, ítarlega og stefnt honum til að fá afhent gögn. Húsleit var gerð hjá Manafort í sumar í tengslum við rannsóknina. Þá hefur komið fram að fjarskipti hans hafi verið hleruð um tíma.


Tengdar fréttir

Mueller krefst gagna frá Hvíta húsinu

Umdeildar athafnir Donalds Trump í embætti eru á meðal viðburða sem sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins vill fá gögn um frá Hvíta húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×