Erlent

Eiginkona Weinstein farin frá honum

Atli Ísleifsson skrifar
Harvey Weinstein og Georgina Chapman eiga saman tvö börn.
Harvey Weinstein og Georgina Chapman eiga saman tvö börn. Vísir/AFP

Eiginkona bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein hyggst skilja við eiginmann sinn í kjölfar ásakana fjölda kvenna um kynferðislegt áreiti.



Í frétt BBC er haft eftir eiginkonu Weinstein, hinni 41 árs Georgina Chapman, að gjörðir eiginmanns síns væru „ófyrirgefanlegar“. Chapman og Weinstein eiga saman tvö börn.



Leikkonurnar Angelina Jolie og Gwyneth Paltrow greindu í gær frá því að Weinstein hafi áreitt þær snemma á leiklistarferli þeirra.



Weinstein var um síðustu helgi vikið frá störfum sem stjórnarformaður The Weinstein Company. Greindi stjórn félagsins frá því að hún myndi aðstoða lögreglu í öllum þeim rannsóknum sem kynnu að verða gerðar í málinu.



Weinstein hafnaði í dag ásökunum sem fram koma í grein The New Yorker um að hann hafi nauðgað þremur konum.



Í umfjöllun New York Times í síðustu viku kom fram að leikkonurnar Ashley Judd og Rose McGowan og fyrrverandi aðstoðarkona hans og starfsmenn fyrirtækisins saki Weinstein um kynferðislega áreitni í þeirra garð.



Konurnar sögðu frá því að Weinstein hafi sýnt af sér óviðeigandi framkomu. Hann hafi staðið fyrir framan þær nakinn og krafist þess að þær yrðu viðstaddar þegar hann færi í sturtu og farið fram á nudd frá þeim og boðist til þess að nudda þær. Í fréttinni kemur fram að ásakanir á hendur Weinstein spanni yfir þrjá áratugi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×