Erlent

FBI óskar eftir aðstoð almennings við að varpa ljósi á fjöldamorðið

Þórdís Valsdóttir skrifar
Paddock skaut út um glugga á herbergi sínu á 32. hæð Mandalay Bay hótelsins í Las Vegas.
Paddock skaut út um glugga á herbergi sínu á 32. hæð Mandalay Bay hótelsins í Las Vegas. Vísir/getty
Lögregluyfirvöld og Alríkislögregla Bandaríkjanna leita til almennings eftir aðstoð við að varpa ljósi á hvað gekk árásarmanninum Stephen Paddock til þegar hann hleypti skotum á tónlistarhátíð í Las Vegas á mánudag.

Lögreglan er enn engu nær um þær ástæður sem kunna að liggja að baki árásinni. Stephen Paddock myrti að minnsta kosti 59 manns og særði 527. Árásin er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna.

Kevin McMahill aðstoðarlögreglustjóri sagði að þeir sem hafa rannsakað árásina séu engu nær um ástæðurnar sem liggja að baki árásinni.

„Við höfum skoðað bókstaflega allt, þar á meðal einkalíf hins grunaða, möguleg stjórnmálatengsl hans, félagslega hegðun hans, efnahag hans og allar mögulegar tengingar við öfgahópa,“ sagði McMahill á blaðamannafundi.

Hann sagði að lögreglan sé búin að fara allar mögulegar leiðir til þess að reyna að skilja hvers vegn Paddock framdi ódæðisverkið og einnig reyna að komast að því hvort aðrir kunna að hafa verið viðriðnir árásina.

McMahill segir yfirvöld ekki hafa fundið nein tengsl á milli Paddock og alþjóðlegra hryðjuverkahópa, þrátt fyrir að hryðjuverkasamtökin ISIS hafi lýst yfir ábyrgð á árásinni. 

Lögregluyfirvöld í Las Vegas og Alríkislögreglan hafa nú brugðið á það ráð að koma fyrir auglýsingaskiltum um gjörvalla Las Vegas borg og hvetja þannig íbúa til að stíga fram ef þau búa yfir einhverjum upplýsingum sem gætu aðstoðað við rannsóknina.

Á auglýsingaskiltunum mun standa “Ef þú veist eitthvað, segðu eitthvað”. Á skiltunum verður einnig gjaldfrjálst númer sem þeir sem hafa upplýsingar um málið geta hringt í.


Tengdar fréttir

Opnir fyrir því að banna byssuaukahlut

Repúblikanar í báðum deildum bandaríska þingsins vilja skoða hvort rétt væri að banna byssuaukahlut sem lætur sjálfvirk skotvopn skjóta hraðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×