Fótbolti

Hannes: Hélt þetta tækifæri kæmi ekki aftur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
„Bara normal day in the office, er það ekki?“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, kátur í viðtali við Tómas Þór Þórðarson eftir að Ísland tryggði sér sæti í lokakeppni HM í kvöld.

„Lyginni líkast og maður veit ekki hvað maður á að segja. Ég er bara orðlaus. Trúi varla að við höfum klárað þetta.“

„Auðvitað erum við góðir, og höfum bullandi trú á þessu liði. En að við höfum bara tekið þennan riðil og klárað hann, pakkað honum saman og átt svo þessa draumastund hérna á heimavelli, hvað á maður að segja?“ spyr Hannes.

„Þetta er eins og einhver draumur.“

Strákarnir skrifuðu blað í sögunni þegar þeir komust á EM í fyrra, en þetta afrek er einhvern veginn stærra og virðist skipta liðið meira máli.

„Þetta er heimsmeistaramótið. Það eru allskonar tilfinningar að brjótast fram núna, við töpuðum fyrir Króatíu fyrir hvað, eru það fjögur ár?, sem eru mestu vonbrigði sem ég hef upplifað á ferlinum.“

„Þá hélt maður að það tækifæri kæmi ekkert aftur, núna er bara fjögurra ára ferðalag að baki og við erum komnir þangað sem við ætluðum okkur fyrir fjórum árum síðan,“ sagði Hannes.+

„Búnir að gera þetta á EM og upplifa það. Einhverjir héldu að loftið myndi fara úr blöðrunni, en ég er bara ótrúlega stoltur af þessu og að hafa haldið velli og unnið þennan fáránlega sterka riðil,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.


Tengdar fréttir

Aron Einar: Orð fá þessu ekki lýst

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, segir að orð fái þessu ekki lýst að liðið sé búið að tryggja sig inn á HM. Hann segir að fögnuðurinn hafi verið meiri nú en þegar liðið tryggði sig á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×