Erlent

Ellilífeyrisþegar sektaðir fyrir óspektir og skemmdarverk á hóteli

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Ruth Fergus hótaði að skjóta hótelstarfsmann þegar starfsmaðurinn brást illa við fjölda áfengra drykkja sem hún hafði drukkið
Ruth Fergus hótaði að skjóta hótelstarfsmann þegar starfsmaðurinn brást illa við fjölda áfengra drykkja sem hún hafði drukkið Vísir/Getty
Gestir og starfsmenn MacDonald Loch Rannoch hótelsins í Perthshire í Skotlandi þurftu að forða sér þegar hjónin Robert og Ruth Fergus létu eins og fílar í postulínsbúð í móttökurými hótelsins. BBC greinir frá.

Hjónin voru að gista á hótelinu en hjónin urðu ósátt þegar starfsmenn hótelsins töldu þau hafa drukkið óhóflegt magn af áfengi. Robert og Ruth gengu berserksgang í kjölfarið.

Robert Fergus, sem er 72 ára gamall, hljóp nakinn um móttöku hótelsins haldandi á skærum. Notaði hann skærin til að klippa í sundur fjarskiptasnúrur og ógna öðrum gestum og starfsfólki. Braut hann einnig rúðu og hrópaði svívirðingar. Lögreglan kom síðar að honum þar sem hann sat ölvaður við stýrið á bílnum sínum.

Eiginkona hans Ruth Fergus, sem er 69 ára gömul, hótaði að skjóta hótelstarfsmann þegar starfsmaðurinn brást illa við fjölda áfengra drykkja sem hún hafði drukkið.

Hjónin voru sektuð um 4.100 pund. Játuðu þau brot sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×