Erlent

Hátt í hálf milljón manna leitar hjálpar vegna Harvey

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegir hafa breytst í stórfljót í flóðunum í Houston og hefur fólk verið bjargað á bátum.
Vegir hafa breytst í stórfljót í flóðunum í Houston og hefur fólk verið bjargað á bátum. Vísir/AFP
Almannavarnir í Bandaríkjunum búast við því að 450.000 sæki um hjálp vegna hitabeltisstormsins Harvey sem hefur sökkt heilu hverfunum í Texas. Talið er að allt að 30.000 manns gætu þurft að hafast við í tímabundum neyðarskýlum.

Alls hefur 75 sentímetra úrkoma fallið í Houston, fjórðu stærstu borg Bandaríkjanna, frá því að Harvey gekk á land sem meiriháttar fellibylur á föstudagskvöld, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Heilu hverfinu eru nú á floti og hafa viðbragðaðilar bjargað þúsundum manna síðustu sólahringa, sumum af þökum húsa sinna. Fimm manns eru látnir.

Brock Long, forstjóri Almannavarna Bandaríkjanna (FEMA) segir að stormurinn sé tímamótaviðburður og biðlaði til almennra borgara um hjálp, að því er segir í frétt CNN.

Fólki hefur verið ráðlagt að reyna ekki að ferðast í vatnselgnum enda getur það sett björgunarfólk og það sjálft í hættu.Vísir/AFP
Það versta er þó ekki enn afstaðið. Úrhellið heldur áfram yfir Texas og fikrar sig nú að ríkjamörkunum að Lúisíana. Áfram er varað við hættulegum flóðum í Texas og sömuleiðis í nágrannaríkinu.

Veðurstofa Bandaríkjanna spáir því að flóðin í Texas nái hámarki á miðvikudag eða fimmtudag.

„Við erum ekki óhult ennþá,“ segir Elaine Duke, starfandi heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, að sögn Washington Post.

Áður en yfir lýkur er talið að svæðið fái meira en árasúrkomu á innan við viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×