Erlent

Aðgerðir vegna eggjahneykslis

Lögregluyfirvöld í Belgíu réðust í húsleit víða í landinu í dag eftir að í ljós kom að skordýraeitur var að finna í milljónum eggja frá stórum framleiðanda í Hollandi. Ekki er talið að menguð egg hafi borist hingað til lands en Matvælastofnun segist fylgjast grannt með gangi mála. 

Milljónir eggja hafa verið tekin úr búðarhillum undanfarna daga eftir að eitrið fannst í úrgangi og blóði hænsna. Eitrið heitir Fipronil og er notað til þess að fjarlægja flær og lýs en notkun þess er bönnuð í matvælaframleiðslu.

Efnið getur verið skaðlegt mannfólki og mikið magn getur leitt til lifrarskemmda og haft áhrif á skjaldkirtil og nýru. Eggjaframleiðsla í Hollandi er með þeim stærstu í heimi. Er því talið að eitrið sé einnig að finna í eggjum í Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi, Lúxemborg og Sviss, en Belgar hafa þegar bannað innflutning á eggjum frá Hollandi og munu líklega fleiri þjóðir feta í fótspor þeirra.

Sömuleiðis hafa Frakkar og Þjóðverjar lýst því að um glæpsamlegt athæfi hafi verið að ræða og það verði rannsakað sem sakamál. Samkvæmt upplýsingum frá MAST eru heil egg á markaði hér af íslenskum uppruna en unnar eggjafurðir fluttar til landsins.

Stofnunin og Heilbrigðiseftirlitið séu að kanna uppruna eggjaafurðanna og að dreifing verði stöðvuð ef ástæða þykir til. Eggjaskortur gæti verið yfirvofandi í fyrrnefndum átta Evrópuríkjum og mögulega víðar og hefur Evrópusambandið verið gagnrýnt fyrir slök viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×