Erlent

Fleiri minnismerki um Þrælastríðið fjarlægð eftir átökin í Charlottesville

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Stytturnar eru báðar staðsettar í garðinum fyrir utan gamla dómhúsið í Lexington.
Stytturnar eru báðar staðsettar í garðinum fyrir utan gamla dómhúsið í Lexington. Vísir/Getty
Jim Gray, borgarstjóri Lexington í Kentucky, hyggst láta fjarlægja tvær styttur af leiðtogum af tímum Þrælastríðsins úr borginni eftir atburðina í Virginíu síðustu daga þar sem þrír létust og tugir slösuðust.

Þetta tilkynnti Jim Gray á Twitter síðu sinni á laugardagskvöld. Hann sagðist hafa ætlað sér að tilkynna um áformin í næstu viku en að atburðir helgarinnar hafi valdið því að hann flýtti tilkynningunni.

Stytturnar tvær sem um ræðir eru af John Hunt Morgan og John C. Breckinridge og eru þær báðar á lóð gamla dómshússins í borginni.

John Hunt Morgan var hermaður fyrir Suðurríkjasambandið þar til hann lést árið 1864. John C. Breckinridge var fjórtándi varaforseti Bandaríkjanna og þrælahaldari.

„Atburðir dagsins í Virginíu minna okkur á að við verðum að sameina landið okkar með því að fordæma ofbeldi, hvíta þjóðernissinna og haturshópa nasista,“ skrifaði Gray.

„Við megum ekki leyfa þeim að móta framtíð okkar.“



Kentucky var ekki hluti af Suðurríkjasambandinu, líkt og Virginía, á tímum Þrælastríðsins. Ríkið var hins vegar fæðingastaður Jefferson Davis, forseta Suðurríkjasambandsins og Abrahams Lincoln, forseta Bandaríkjanna á tímum Þrælastríðsins. 

Kentucky gegndi lykilhlutverki í Þrælastríðinu og sagði Lincoln árið 1861 að það að tapa Kentucky þýddi að tapa stríðinu sjálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×