Erlent

Vill auka þrýsting á Kína með þvingunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Chuck Schumer.
Chuck Schumer. Vísir/Getty
Chuck Schumer, æðsti þingmaður demókrata á öldungadeild Bandaríkjaþings, vill að Donald Trump, forseti, stöðvi fjárfestingar Kínverja í Bandaríkjunum. Þannig sé mögulega hægt að fá Kína til þess að taka á Norður-Kóreu og hegðun þeirra. Þetta kemur fram í bréfi sem Schumer sendi Trump.

Þar biðlar Schumer til forsetans að beita valdi sínu til þess að stöðva kaup kínverskra aðila og fyrirtækja á bandarískum fyrirtækjum og jafnvel stöðva þá samruma sem þegar eru áætlaðir.

„Að mínu mati mun Kína ekki reyna að hafa áhrif á Norður-Kóreu án þess að Bandaríkin beiti Kína efnahagslegum þrýstingi," sagði Schumer í bréfinu, samkvæmt frétt Reuters. „Bandaríkin verða að senda skýr skilaboð til yfirvalda Kína.“

Áhyggjur Bandaríkjamanna vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlana Norður-Kóreu hafa aukist verulega á síðustu misserum. Norður-Kóreumenn hafa gert tilraunir sem sýna að eldflaugar þeirra gætu drifið til meginlands Bandaríkjanna. Hins vegar þykir ólíklegt að þeir hafi þróað kjarnorkuvopn sem gætu þolað það ferðalag.

Fregnir hafa borist af því að ríkisstjórn Trump sé að skoða hvernig herða megi reglugerðir varðandi kaup erlendra fyrirtækja á fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Fjárfesting Kína í Bandaríkjunum hefur aukist gífurlega á síðustu árum.


Tengdar fréttir

Kínverjar spenna vöðvana

Forseti Kína, sagði ríkinu nauðsynlegt að byggja fyrsta flokks herafla sem sigrað gæti alla óvini ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×