Erlent

Kona sem bauð sig fram til forseta segir falsaðar nektarmyndir hafa verið notaðar gegn sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Rwigara er 35 ára gamall frumkvöðull sem bauð sig fram til forseta Rúanda.
Rwigara er 35 ára gamall frumkvöðull sem bauð sig fram til forseta Rúanda. Vísir/AFP
Diane Rwigara, einan konan sem bauð sig fram í forsetakosningunum í Rúanda, segir að andstæðingar hennar hafi birt falsaðar nektarmyndir til að reyna að þagga niður í henni.

Kosið er til forseta í Rúanda í dag en Rwigara segir að um leið og hún tilkynnti um framboð sitt hafi stjórnarflokkurinn Föðurlandsfylking Rúanda sem Paul Kagame, sitjandi forseti, tilheyrir hafið árásir á sig.

Aðeins nokkrum dögum eftir framboðstilkynninguna voru nektarmyndir sem voru sagðar af Rwigara birtar á netinu. Hún fullyrðir hins vegar að þær séu falsaðar og ætlað að draga úr trúverðugleika hennar.

„Þetta eru falsaðar nektarmyndir, breytt í Photoshop, og þetta er eitt af mörgum brögðum sem hafa verið notuð til að þagga niður í mér,“ segir Rwigara að því er kemur fram í frétt CNN-fréttastöðvarinnar.

Talsmaður Föðurlandsfylkingarinnar þverneitar hins vegar að flokkurinn hafi haft nokkuð með birtingu myndanna að gera.Paul Kagame greiddi atkvæði í morgun. Hann mun líklega vinna þriðja kjörtímabil sem forseti.Vísir/AFP
Dæmd úr leik fyrir meint svindl

Rwigara staðhæfir einnig að stuðningsmenn hennar hafi verið áreittir og handteknir.

Nokkrum vikum eftir að myndirnar voru birtar ógilti yfirkjörstjórn Rúanda framboð Rwigara og sakaði hana um kosningasvik með því að skrá látið fólk sem stuðningsmenn. Hún segir það uppspuna frá rótum.

Kagame hefur setið á forsetastóli frá árinu 2000. Fastlega er gert ráð fyrir að forsetinn haldi velli í kosningunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.