Erlent

Umdeilt stjórnlagaþing kemur saman í Venesúela: Vara alþjóðasamfélagið við afskiptum af ástandinu í landinu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Delcy Rodriguez, nýkjörinn forseti þingsins sést hér fremst í flokki við hlið Nicolas Maduro, forseta Venesúela.
Delcy Rodriguez, nýkjörinn forseti þingsins sést hér fremst í flokki við hlið Nicolas Maduro, forseta Venesúela. Vísir/Getty
Nýtt stjórnlagaþing Venesúela kom saman í fyrsta sinn í dag, þrátt fyrir háværa gagnrýni bæði þar í landi og frá alþjóðasamfélaginu. Lögreglan beitti mótmælendur táragasi þegar þeir reyndu að komast inn í þinghúsið. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

Nicolás Maduro, forseti Venesúela, segir þingið nauðsynlegt til að koma á friði í landinu eftir marga mánuði af mótmælum og átökum. Stjórnarandstaðan vill hins vegar meina að þingið sé tilraun forsetans að ríghalda í þau völd sem hann hefur.

545 manns sitja í hinu nýkjörna stjórnlagaþingi og þar á meðal eru eiginkona Maduro og sonur hans. Þá var Delcy Rodriguez, fyrrverandi utanríkisráðherra Venesúela og náin samstarfskona forsetans, kjörinn forseti þingsins. Í upphafsræðu sinni sagði hún stjórnarandstæðuna vera fasíska og varaði alþjóðasamfélagið við því að skipta sér af málum þar í landi.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gengu um götur með myndir af Hugo Chavez og Simón Bolivar.Vísir/Getty
Kosið var til þingsins síðastliðinn sunnudag og hefur Luisa Ortega, ríkissaksóknari Venesúela, fyrirskipað rannsókn á ásökunum um kosningasvindl í kosningunum. Ortega hefur gagnrýnt Maduro forseta harðlega og kallar hún eftir hlutlausri rannsókn. Þá hefur Evrópusambandið tilkynnt að það viðurkenni ekki kosningarnar.

Nokkrir særðust í átökunum í dag þegar lögreglan reyndi að hafa hemil á mótmælendum, sem voru nokkur hundruð talsins. Á öðrum stöðum í Caracas, höfuðborg landsins, hittust stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og fögnuðu nýja þinginu. Margir veifuðu myndum af Hugo Chávez, fyrrverandi forseta landsins sem lést árið 2013 og byltingarhetjunni Simón Bolivar.


Tengdar fréttir

Lætur rannsaka meint kosningasvik í Venesúela

Luisa Ortega, ríkissaksóknari Venesúela, hefur fyrirskipað rannsókn á ásökunum um kosningasvindl í stjórnlagaráðskosningum sunnudagsins. Ortega, sem er opinskár gagnrýnandi forsetans Nicolas Maduro, tilkynnti um þetta í gær og kallar hún eftir hlutlausri rannsókn.

ESB viðurkennir ekki kosningarnar í Venesúela

Alþjóðlegur þrýstingur á ríkisstjórn Venesúela eykst. ESB viðurkennir ekki umdeildar kosningar þar en beitir hana þó ekki refsiaðgerðum líkt og Bandaríkjamenn hafa þegar tilkynnt um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×