Erlent

41,5 prósent kjörsókn í blóðugum kosningum í Venesúela

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mótmælendur komu saman í höfuðborg Venesúela, Caracas, vegna kosninganna í gær.
Mótmælendur komu saman í höfuðborg Venesúela, Caracas, vegna kosninganna í gær. Vísir/AFP
Yfirvöld í Venesúela hafa tilkynnt um 41,5 prósent kjörsókn í umdeildum kosningum sem haldnar voru í gær. Kosið var um nýtt stjórnlagaþing en stjórnarandstaðan dregur yfirlýstar tölur um kjörsókn í efa.

Stjórnarandstaðan í Venesúela sagði að 88 prósent kjósenda hefðu setið heima í kosningunum. Þá neitar andstaðan að taka kosningarnar gildar og hefur kallað eftir frekari mótmælum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Ofbeldi setti mark sitt á kosningarnar í gær en að minnsta kosti tíu létust í mótmælum vegna þeirra. Forseti Venesúela, Nicolás Meduro, fagnaði þó kosningunum og sagði þær „stærsta atkvæði til uppreisnarinnar frá upphafi.“

Maduro tilkynnti um breytingar á stjórnarskrá landsins í maí síðastliðnum, sem kveða á um að stjórnlagaþingi verði komið á fót. Þannig verður stjórnarskráin færð úr höndum þingsins þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta. Kosið var um þessar breytingar í gær og þær samþykktar.

Mótmælahrinan í Venesúela hefur að mestu beinst að forsetanum, Maduro, en mótmælendur hafa krafist þess að hann fari frá völdum. Þá hefur stjórnarskrárbreytingunni einnig verið mótmælt harðlega eftir að tilkynnt var um hana í maí.

Leiðtogi stjórnarandstöðunar sagði „fjöldamorð“ hafa vera framið í gær

Stjórnarandstaðan hefur nú boðað til allsherjarmótmæla í höfuðborg Venesúela, Caracas, á miðvikudag en þá mun nýtt stjórnlagaþing koma saman í fyrsta skipti.

„Við viðurkennum ekki þetta sviksamlega ferli,“ sagði leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Henrique Capriles, eftir að tilkynnt var um úrslit kosninganna. Þá skilgreindi hann dauðsföll í mótmælum gærdagsins sem „fjöldamorð.“

Tíu létust í mótmælum í gær en þar af voru að minnsta kosti þrír skotnir til bana í Táchira-ríki í vesturhluta landsins, tveir unglingar og hermaður. Þá var ritari ungliðahreyfingar stjórnarandstöðuflokksins Acción Democrátia, einnig skotinn til bana í bænum Cumán og maður á fertugsaldri fannst látinn á heimili sínu í Bolívar-ríki.

Alþjóðasamfélagið hefur gagnrýnt ástandið í Venesúela harðlega síðustu mánuði. Bandarísk yfirvöld sögðust í gær vera að íhuga að koma á frekari viðskiptabönnum í landinu.

Um hundrað manns hafa látið lífið og þúsundir særst í átökum milli mótmælenda og öryggissveita í Venesúela síðan í apríl.


Tengdar fréttir

Kveikt í manni við mótmælin í Venesúela

Mótmælendur í Caracas, höfuðborg Venesúela, kveiktu í ungum manni í gær, sem hlaut alvarleg brunasár en komst lífs af. Þá var annar maður skotinn til bana en nú hafa 48 látist í mótmælunum. Varað er við mynd frá mótmælunum sem fylgir fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×