Erlent

Trump rekur samskiptastjóra Hvíta hússins eftir aðeins tíu daga starf

Kjartan Kjartansson skrifar
Anthony Scaramucci veifar nú bless eftir stuttan en litríkan feril sem samskiptastjóri Hvíta hússins.
Anthony Scaramucci veifar nú bless eftir stuttan en litríkan feril sem samskiptastjóri Hvíta hússins. Vísir/AFP
Anthony Scaramucci, samskiptastjóri Hvíta hússins, hefur verið látinn fara eftir innan við tíu daga í starfi. New York Times greinir frá því að Donald Trump forseti hafi látið Scaramucci fara að beiðni nýs starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Mikla athygli vakti þegar Scaramucci hringdi í blaðamann New Yorker og jós fúkyrðum yfir Reince Priebus, þáverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, og Stephen Bannon, aðalráðgjafa Trump. Priebus lét af störfum fyrir helgi.

Í stað Priebus skipaði forsetinn John Kelly, fyrrverandi hershöfðingja og þjóðaröryggisráðherra sinn, í starf starfsmannastjóra Hvíta hússins.

New York Times byggir frétt sína á þremur heimildamönnum sem þekkja til ákvörðunarinnar um að láta Scaramucci fara. Ekki sé ljóst hvort að Scaramucci haldi áfram störfum í Hvíta húsinu eða segi algerlega skilið við stjórn Trump.

Sagði Bannon „sjúga eigin lim“

Sean Spicer, fyrrverandi blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði af sér þegar Trump ákvað að ráða Scaramucci. Priebus er einnig sagður hafa lagst gegn ráðningu hans. Scaramucci var ráðinn föstudaginn 21. júlí.

Viðtal Scaramucci við blaðamann New Yorker á miðvikudag vakti mikla furðu. Þar sagði hann Priebus hafa „reðurteppt“ sig og að hann væri sjálfur ekki eins og Bannon sem væri að reyna að „sjúga á sér eigin lim“.

Scaramucci er sagður hafa stært sig af því svara beint til Trump og að hann væri ekki undir valdi starfsmannastjóra Hvíta hússins. Kelly tók við starfi starfsmannastjóra í dag og segir New York Times að hann hafi gert starfsliði Hvíta hússins ljóst að hann réði nú ferðinni.

Uppfært 19:25 Sean Spicer, fráfarandi blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir að Scaramucci hafi viljað gefa Kelly kost á að byrja frá grunni og byggja upp sitt eigið lið. Því stígi hann til hliðar. Washington Post hefur eftir heimildamönnum að Kelly hafi verið ofboðið vegna New Yorker-viðtalsins sem hafi verið vandræðalegt fyrir forsetann. Brottrekstur Scaramucci sé ætlað að breyta menningunni í Hvíta húsinu og að sýna starfsfólkinu að ummæli þess hafi alltaf áhrif á ímynd forsetans.


Tengdar fréttir

Misvísandi skilaboð frá Hvíta húsinu

Misvísandi skilaboð hafa borist frá forsetaembætti Bandaríkjanna um ný lög sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Lögin kveða einnig á um að minnka möguleika forsetans, Donalds Trump, á því að aflétta núverandi þvingunum. Því er forsetinn andvígur.

Innanhússerjur í Hvíta húsinu fyrir opnum tjöldum

Samskiptastjóri Hvíta hússins gefur sterklega í skyn að starfsmannastjóri þess hafi lekið skaðlegum upplýsingum í fjölmiðla. Hann segir að þeir sem hefðu lekið eins viðkvæmum upplýsingum og nú sé gert hefðu verið hengdir fyrr á öldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×