Erlent

Bandaríkin leggja refsiaðgerðir á forseta Venesúela

Kjartan Kjartansson skrifar
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, er sakaður um að sölsa undir sig völd með ólögmætum hætti.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, er sakaður um að sölsa undir sig völd með ólögmætum hætti. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Bandaríkjanna ætlar að beita Nicolas Maduro, forseta Venesúela, refsiaðgerðum fyrir að grafa undan lýðræðinu í heimalandi sínu. Segir hún Maduro vera „einræðisherra“.

Ákvörðun bandarískra stjórnvalda kemur eftir atkvæðagreiðslu til stjórnlagaþings sem haldin var í Venesúela um helgina. Stjórnarandstaðan í landinu, sem er með meirihluta í þjóðþinginu, sniðgekk kosningarnar, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Tíu manns létust í mótmælum í kringum kosningarnar sem andstæðingar Maduro telja skrípaleik. Stjórnarandstaðan segir að 88% kjósenda hafi setið heima en Maduro kallaði kosningarnar „atkvæði fyrir byltinguna“. Washington Post segir að tilgangur atkvæðagreiðslunnar hafi verið að skipta þinginu út fyrir annað sem er Maduro vilhollt og styrkja stöðu hans.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og fleiri þjóðarleiðtogar höfðu varað Maduro við að láta atkvæðagreiðsluna fara fram. Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sakaði Maduro um að vera einræðisherra sem hunsaði vilja venesúelönsku þjóðarinnar.

Bandarískum fyrirtækjum og einstaklingum verður nú bannað að eiga viðskipti við Maduro. Reuters-fréttastofan segir að refsiaðgerðirnar beinist á engan hátt gegn olíuiðnaði Venesúela. Það komi hins vegar til greina þegar fram líða stundir.

Áður höfðu bandarísk stjórnvöld beitt þrettán háttsetta embættismenn í Venesúela sambærilegum refsiaðgerðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×