Erlent

Lögreglumenn köstuðust af bifhjólum sínum í sprengjuárás í Caracas

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki liggur fyrir hver ber ábyrgð á árásinni, né hversu margir særðust. Engar fréttir hafa þó borist um dauðsföll.
Ekki liggur fyrir hver ber ábyrgð á árásinni, né hversu margir særðust. Engar fréttir hafa þó borist um dauðsföll.
Venesúalskir lögreglumenn köstuðust af bifhjólum sínum í sprengjuárás á götum Caracas í gær. Lögreglumennirnir ferðuðust tveir og tveir saman á hjólunum í röð þegar sprengjan sprakk skyndilega.

Myndband náðist af því þegar sprengjan sprakk og má heyra hvernig hópur manna klappar saman höndunum áður en ringulreið skapast.

Í frétt SVT segir að lögregla hafi beitt táragasi gegn þeim vegfarendum sem fögnuðu sprengjunni.

Ekki liggur fyrir hver ber ábyrgð á árásinni, né hversu margir særðust. Engar fréttir hafa þó borist um dauðsföll.

Sjá má myndband af atvikinu að neðan.

Mikil mótmæli voru í Venesúela í gær þar sem haldnar voru umdeildar kosningar um nýtt stjórnlagaþing. Ofbeldi setti mark sitt á kosningarnar en að minnsta kosti tíu létu lífið í mótmælunum.

Maduro tilkynnti um breytingar á stjórnarskrá landsins í maí síðastliðnum, sem kveða á um að stjórnlagaþingi verði komið á fót. Þannig verður stjórnarskráin færð úr höndum þingsins þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta. Kosið var um þessar breytingar í gær og þær samþykktar.

Yfirvöld í Venesúela hafa greint frá því að kjörsókn hafi verið 41,5 prósent, en stjórnarandstaðan hefur dregið þær tölur í efa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×