Erlent

Úkraína vill inn í NATO

Samúel Karl Ólason skrifar
Jens Stoltenberg og Petro Poroshenko.
Jens Stoltenberg og Petro Poroshenko. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Úkraínu tilkynnti í dag að viðræður við Atlantshafsbandalagið munu hefjast á næstunni. Til standi að Úkraína muni sækja um inngöngu í NATO og vinna að endurbótum innanlands til þess að ná þeim skilyrðum sem til þarf fyrir árið 2020. Sérfræðingar telja mörg ár í að Úkraína geti sótt formlega um aðild.

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hitti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO í dag, og ræddu þeir mögulega inngöngu landsins í varnarbandalagið. Stoltenberg notaði tækifærið einnig til þess að kalla eftir því að yfirvöld í Rússlandi kölluðu hermenn sína í austurhluta Úkraínu heim aftur.

„Í dag sögðumst við vilja byrja viðræður um aðildaráætlun og uppástungur okkar varðandi þær viðræður voru samþykktar,“ sagði Poroshenko samkvæmt frétt Reuters.

Úkraína stendur í átökum við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins sem studdir eru af Rússlandi. Rússar innlimuðu einnig Krímskaga frá Úkraínu árið 2014. Rússar hafa lengi verið reiðir yfir því að ríki nærri landamærum sínum hafi sótt um og fengið aðild að NATO.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Putin, forseta Rússlands, sagði í dag að aðild Úkraínu að NATO myndi ekki auka stöðugleika og öryggi í Evrópu.

Samkvæmt könnun sem framkvæmd var í júní vilja um 69 prósent Úkraínumanna ganga til liðs við NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×