Erlent

Hafa slátrað minnst 27 flóðhestum

Samúel Karl Ólason skrifar
Flóðhestar eru vernduð tegund og hafa flóðhestar og fuglar gert þennan hluta Níger fljótsins vinsælan meðal ferðamanna.
Flóðhestar eru vernduð tegund og hafa flóðhestar og fuglar gert þennan hluta Níger fljótsins vinsælan meðal ferðamanna. Vísir/AFP
Minnst 27 flóðhestum hefur verið slátrað í vesturhluta Níger á síðustu mánuðum. Nánar tiltekið í Ayorou héraði. Heimamenn segja flóðhesta skemma uppskeru þeirra og drepa búfé. Flóðhestar eru vernduð tegund og hafa flóðhestar og fuglar gert þennan hluta Níger fljótsins vinsælan meðal ferðamanna.

Héraðsstjóri Ayorou, Jando Rhichi Algaher, sagði AFP fréttaveitunni að hermenn hefðu verið kallaðir á svæðið og að drápunum hefði fækkað eftir það.

Tíu menn voru handteknir vegna gruns um að hafa drepið flóðhesta fyrr á árinu, en þeim hefur öllum verið sleppt. Handtökurnar juku þó spennu á svæðinu.

„Við hvöttum heimamenn til brjóta ekki lögin og hlustuðum á áhyggjur þeirra,“ sagði Almoustapha Garba, umhverfisráðherra Níger, samkvæmt AFP. Hann hét því einnig að greiða þeim sem hafa tapað uppskeru og búfé skaðabætur.

Heimamenn vöruðu við því í maí að flóðhestar væru að skemma uppskeru og jafnvel ógna bátum á fljótinu. Tólf skólabörn á aldrinum tólf til þrettán ára létu lífið árið 2014, þegar flóðhestur réðst á bát sem þau voru í á Níger fljótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×