Enski boltinn

Eigendur Swansea vara Everton við og vilja fá Gylfa til Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki á Old Trafford.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki á Old Trafford. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson gæti farið í æfingaferðina til Bandaríkjanna eftir allt saman ef marka má frétt Wales Online um viðbrögð eigenda Swansea City við því að besti leikmaður liðsins sæti heima.

Jason Levien og Steve Kaplan, eigendur velska félagsins, segjast þar vera vongóðir um að Gylfi endurskoði afstöðu sína um að halda sig heima á meðan liðsfélagar hans eru í æfingaferð í Bandaríkjunum.

Eigendurnir senda Everton líka tóninn í tilkynningunni þar sem þeir segja þar að Everton geti gleymt því að fá Gylfa fyrir minna en 50 milljón pund. Swansea hefur þegar hafnað 40 milljón punda tilboði frá Everton.

Eigendur Swansea vara líka Everton við því að reyna að ná samkomulagi við leikmanninn sjálfan áður en félögin komast að samkomulagi um kaupverð.

Jason Levien og Steve Kaplan segjast vera vonsviknir með þá ákvörðun íslenska landsliðsmannsins að koma ekki með í æfingaferðina og að þeir vonist jafnframt við því að hann hugsi þetta betur og drífi sig með.

Gylfi sagðist ekki treysta sér í æfingaferðina á meðan framtíð hans væri í svona mikilli óvissu en það var stutt í brottför út á flugvöll þegar Gylfi tilkynnti knattspyrnustjóranum Paul Clement og forráðamönnum Swansea að hann kæmi ekki með.

„Við höfum enn ekki fengið tilboð sem samræmis sanngjörnu mati okkar á Gylfa miðað við mikilvægi hans fyrir okkar félag,“ segir í tilkynningu Jason Levien og Steve Kaplan.

„Við munum ekki láta þvinga okkur út það að taka ákvörðun á meðan félagið er ekki tilbúið að borga það sem við viljum fá og þrátt fyrir að þeir telji sig vera með samkomulag við leikmanninn. Slíkt samkomulag væri auðvitað brot á reglum ensku úrvalsdeildarinnar,“ skrifa þeir Levien og Kaplan enn fremur.  

„Við berum mikla virðingu fyrir Gylfa, bæði sem persónu og leikmanni og við erum bjartsýnir á það að hann muni endurskoða afstöðu sína og koma út til liðsfélaga sinna,“ segir meðal annars í yfirlýsingu eigendanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×