Fótbolti

Afmælisbarnið Sif: „Ótrúlega sérstök stund“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sif Atladóttir
Sif Atladóttir vísir/tom
Íslenska kvennalandsliðið æfði í fyrsta sinn í Ermelo í Hollandi í dag eftir komuna þangað í gærkvöldi.

Stelpurnar okkar voru mættar upp á hótel í Ermelo þar sem þær gista næstu tvær vikurnar um ellefu í gærkvöldi og þá voru aðeins tólf tímar í fyrstu æfingu. Þær mættu brosandi og kátar í hitanum á æfinguna klukkan ellefu í morgun að staðartíma.

Íslensku leikmennirnir viðurkenndu að það hefði tekið sinn tíma að ná áttum eftir þessa ótrúlegu kveðjustund í Leifsstöð í gærkvöldi. Sif Atladóttir, miðvörður íslenska liðsins, trúði vart eigin augum í gær.

„Þetta var ótrúlega gaman og ótrúlega fallegt. Mér fannst stundin ótrúlega sérstök. Ég var ótrúlega ánægð," sagði Sif á æfingunni í dag þar sem hún fagnaði 32 ára afmælisdegi sínum.

„Óskar sagði við okkur að leggja símunum því það yrðu til nóg af myndum og njóta bara stundarinnar. Ég held að við höfum bara gert það. Þetta var æðislegt."

„Maður er að átta sig meira og meira á því hvað þetta er orðið stórt. Þetta var bara frábær leið til þess að gefa okkur auka byr undir báða vængi."

Fyrsti leikur Íslands er á móti Frakklandi á þriðjudaginn. Sif fagnar því að byrja á móti besta liðinu.

„Mér finnst það geðveikt, alveg geðveikt. Við þekkjum Frakkana vel og þeirra styrkleika. Við förum í þeirra styrkleika á næstu dögum en er ekki best að mæta þeim í fyrsta leik og njóta stundarinnar," segir Sif en hvernig er undirbúningurinn fyrir þann leik?

„Þjálfararnir eru búnir að undirbúa okkur vel. Næstu daga munum við fara í smáatriðin en nú einbeitum við okkur að okkar leik og finnum glufur til að nýta á móti þeim," segir Sif Atladóttir.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×