Fótbolti

Stuðningurinn snerti fyrirliðann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar fengu magnaðar kveðjur í gær.
Stelpurnar fengu magnaðar kveðjur í gær. vísir/vilhelm
Stelpurnar okkar fengu heldur betur alvöru kveðjustund í Leifsstöð í gær þegar þær flugu til Hollands á vit ævintýranna í Hollandi þar sem þær hefja leik á EM 2017 á þriðjudaginn.

Fjöldi fólks var staddur í flugstöðinni til að kveðja stelpurnar okkar en þær gengu í gegnum múg og margmenni þar sem allir vildu kasta á þær kveðju og óska þeim góðs gengis.

Íslenska liðið horfði svo á myndband sem snerti við þeim en þar var búið að safna saman kveðjum frá vinum, fjölskyldum og frægu fólki en myndbandið var bæði skemmtilegt og tilfinningaþrungið.

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, var heilluð af kveðjustundinni en hún hefur aldrei upplifað slíkan áhuga áður. Hún er á leiðinni á sitt þriðja stórmót eftir að vera ungur og efnilegur nýliði á EM 2009 í Finnlandi.

"Stuðningurinn í dag snerti mig," skrifaði hún á Twitter-síðu sína í gær og deildi mynd af sér þar sem hún gekk í gegnum mannmergðina í Leifsstöð.

Stelpurnar æfa í Ermelo klukkan 11.00 að staðartíma í dag en fyrsti leikur er á þriðjudaginn í Tilburg á móti stórliði Frakklands klukkan 18.45 að íslenskum tíma.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×