Fótbolti

Freyr: Mér leið í fyrsta sinn eins og súperstjörnu

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. vísir/tom
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari í fótbolta, var eins og aðrir í kringum íslenska liðið snortinn af kveðjustundinni sem stelpurnar okkar fengu í Leifsstöð í gær þegar þær héldu til Hollands á EM 2017.

Margmenni mætti til að kveðja íslensku stelpurnar og trúðu þær og þjálfarinn vart hvað var að gerast.

„Ég held að ég hafi sagt við Ása eftir að við komumst í gegnum mannhafið að þetta var í fyrsta sinn sem mér leið eins og einhverri súperstjörnu," sagði Freyr við Vísi á æfingu landsliðsins í Ermelo í dag.

„Þegar að þetta hlið opnaðist kom bara blátt haf á móti manni, tónlist og allt kolvitlaust. Þetta var óraunverulegt en geggjuð minning. Maður á eftir að horfa til baka og hugsa að þetta var eitthvað. Maður naut þess geðveikt í gær en núna er einbeitingin sett á æfinguna.“

Íslenska liðið hefur verið mikið í fjölmiðlum að undanförnu, leikið í auglýsingum og þurft að árita myndir fyrir ungviðið. Nóg hefur verið að gera.

„Það sem er gott er að ég var búinn að undirbúa liðið fyrir svona áreiti. Við erum búin að tala um hvernig við stjórnum tilfinningunum. Ég leyfði þeim að njóta kvöldsins. Við erum með fjögurra klukkustunda reglu. Þær fengu að njóta í gær en núna eru allir ferskir og ekki annað að sjá nema allir séu klárir í æfinguna,“ sagði Freyr en hvernig er svo andlegt ástand á liðinu núna?

„Ég finn ekki fyrir neinu öðru en mikilli einbeitingu hjá liðinu en auðvitað erum við meðvituð um að þetta er á öðru stigi en nokkurn tíma áður. Það eru leikmenn í hópnum sem hafa ekki upplifað neitt í líkingu við þetta. En þær eru samt svo ískaldar og flottar að ég hef ekki áhyggjur af einu né neinu.“

Fyrsti leikur er á móti Frakklandi á þriðjudaginn. Frakkar eru með eitt besta liðið á mótinu. Hvernig ætla íslensku stelpurnar að leggja þær að velli?

„Við þurfum að verjast mjög vel. Við þurfum að geta blandað varnarleiknum í pressu og að gera varist djúp. Við erum búin að fara yfir það og hvernig við ætlum að halda einbeitingu í því. Við eigum ekki erfitt með að pressa. Það verður í lagi. Ég hef meiri áhyggjur af lengi köflum í lágpressu,“ sagði Freyr Alexandersson.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×