Erlent

Macron vonar að Trump vendi kvæði sínu í kross í loftslagsmálum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel virtist fara á með Macron og Trump þegar sá síðarnefndi heimsótti Frakkland fyrir helgi.
Vel virtist fara á með Macron og Trump þegar sá síðarnefndi heimsótti Frakkland fyrir helgi. Vísir/AFP
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segist vongóður um að Donald Trump Bandaríkjaforseti snúi við ákvörðun sinni um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu eftir opinbera heimsókn hans á þjóðhátíðardegi Frakka.

„Trump sagði mér að hann myndi reyna að finna lausn á næstu mánuðum. Við ræddum ítarlega um hvað gæti fengið hann til að ganga aftur inn í Parísarsamkomulagið,“ sagði Macron við franska dagblaðið Le Journal du Dimanche og Reuters-fréttastofan hefur eftir.

Trump tilkynnti um þá ákvörðun sína að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu sem er ætlað að stemma stigu við losun á gróðurhúsalofttegundum til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga 1. júní.

Draga tennurnar úr loftslagsaðgerðum Obama heima fyrir

Jafnvel þó að Macron telji hugsanlegt að Trump hætti við að hætta þá hafa aðgerðir Bandaríkjastjórnar fram að þessu gert áframhaldandi þátttöku hennar í Parísarsamkomulaginu nær merkingarlausa.

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hefur þegar gripið til aðgerða til þess að snúa við loftslagsaðgerðum sem voru hafnar í stjórnartíð Baracks Obama, þar á meðal viðmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda.

Trump hefur einnig ítrekað lýst yfir vilja sínum til að endurlífga kolaiðnaðinn í Bandaríkjunum sem hefur átt verulega undir högg að sækja. Forsetinn og bandamenn hans telja ástæðuna íþyngjandi reglur, þar á meðal vegna loftslagsaðgerða. Raunverulega segja sérfræðingar að kol hafi einfaldlega orðið undir í samkeppninni við ódýrt jarðgas og endurnýjanlega orkugjafa.


Tengdar fréttir

Dómstóll bannar ríkisstjórn Trump að frysta loftmengunarreglur

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna mátti ekki fresta gildistöku viðmiða um loftmengun sem voru ákveðin í tíð Baracks Obama. Úrskurður áfrýjunardómstóls þessa efni gæti torveldað ríkisstjórn Donalds Trump að afnema reglur og viðmið sem stofnanir komu á áður hún tók við völdum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.