Enski boltinn

Zamorano: Sánchez þarf að fara frá Arsenal ef hann ætlar að vinna Meistaradeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sánchez á ferðinni úrslitaleik Álfukeppninnar í gær.
Sánchez á ferðinni úrslitaleik Álfukeppninnar í gær. vísir/getty
Síleski framherjinn Alexis Sánchez þarf að fara frá Arsenal ef hann ætlar að ná markmiði sínu að vinna Meistaradeild Evrópu. Þetta segir landi Sánchez, Iván Zamorano.

Sánchez á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal og mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð hans. Hann hefur m.a. verið orðaður við Manchester City og Bayern München.

„Ég held að Alexis viti alveg hvað hann ætlar að gera. Hann hefur metnað og hann stjórnar ákvörðuninni sem hann tekur,“ sagði Zamorano sem lék með félögum á borð við Real Madrid og Inter á sínum tíma.

„Hans helsta markmið er að vinna Meistaradeildina og hann á ekki möguleika á því hjá Arsenal.“

Sánchez sagðist í síðustu viku vita hvar hann myndi spila á næsta tímabili. Hann vildi þó ekki gefa það út.

Sánchez og félagar í síleska landsliðinu töpuðu fyrir Þjóðverjum í úrslitaleik Álfukeppninnar í gær.

Sánchez gekk til liðs við Arsenal árið 2014. Hann hefur skorað 72 mörk í 145 leikjum fyrir félagið.


Tengdar fréttir

Þjóðverjar unnu Álfukeppnina

Þjóðverjar halda áfram að safna titlum í sumar en A-landslið þeirra vann Álfukeppnina í kvöld með 1-0 sigri á Síle í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×