Erlent

Pólverjar lofa Trump fagnandi stuðningsmönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump veifar áður en hann leggur af stað til Evrópu.
Donald Trump veifar áður en hann leggur af stað til Evrópu. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun heimsækja Pólland í dag á leið sinni á fund leiðtoga G20-ríkjanna í Hamborg um helgina. Þar mun hann halda ræðu á Krasinski torgi og funda með leiðtogum Póllands og Króatíu. Á næstu dögum mun hann einnig funda með leiðtogum Eystrasaltsríkjanna og ríkja við Svartahaf og Adríahaf.

Fjölmiðlar í Póllandi segja frá því að heimamenn hafi lofað Trump að honum yrði vel tekið við komuna til landsins. Trump þykir ekki vinsæll forseti á heimsvísu og nýleg könnun þar að lútandi kom illa út fyrir forsetann.

Sjá einnig: Jarðarbúar bera lítið traust til Trump.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar stendur til að flytja góðviljaða áhorfendur víðsvegar að til þess að hlusta á ræðu Trump. Það vilji ríkisstjórnin gera til þess að standa við það loforð að vel yrði tekið á móti honum í Póllandi.

Síðast kom forsetinn til Evrópu í maí og komu þar upp nokkur vandræðaleg atvik fyrir Trump. Meðal annars gagnrýndi hann marga af leiðtogum Evrópu fyrir að eyða ekki nóg í varnarmál. Þá vakti vandræðalegt handaband hans og Emmanuel Macron mikla athygli og sömuleiðis atvik þegar hann stuggaði við forsætisráðherra Svartfjallalands til þess að verða fremstur á mynd.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, bauð Trump í heimsókn til Bretlands þegar þau hittust í Washington í janúar. Fregnir hafa borist af því að þeirri heimsókn hafi verið aflýst af ótta við mótmæli gegn Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×