Erlent

Jarðarbúar bera lítið traust til Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump ásamt öðrum þjóðarleiðtogum.
Trump ásamt öðrum þjóðarleiðtogum. Vísir/AFP
Hin stutta forsetatíð Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, hefur þegar gjörbreytt áliti heimsbyggðarinnar á Bandaríkjunum, ef marka má könnun Pew rannsóknarsetursins sem ræddi við rúmlega fjörutíu þúsund manns um allan heim og spurði álits á Bandaríkjunum og forsetanum.

Slík könnun er gerð reglulega og í þetta skiptið versnaði álit fólks á Bandaríkjunum víðast hvar til muna, miðað við það þegar Barack Obama var forseti landsins.

Aðeins í tveimur löndum gerðist það að álit fólks á Trump er jákvæðara en í garð Obama, það var í Ísrael og í Rússlandi. Þrír fjórðu hlutar aðspurðra, bera hins vegar lítið sem ekkert traust til forsetans.

Í ríkjum sem teljast bandamenn Bandaríkjanna hefur álit íbúa á forseta Bandaríkjanna lækkað mest. Til dæmis sögðust 86 prósent Þjóðverja bera traust til Obama, en einungis ellefu prósent bera traust til Trump.

Þó gefa niðurstöður könnunarinnar í skyn að fólk telur að samband ríkja sinna við Bandaríkin muni ekki breytast á næstu árum.

Stefnumál og persóna Trump óvinsæl

Í niðurstöðum könnunarinnar segir að skortur á trausti til Trump byggi bæði á stefnumálum hans og persónu hans. Ætlun hans að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó er einkar óvinsæl og segjast rúmlega þrír fjórðu vera andsnúnir því. Hins vegar er andstaðan mest í Mexíkó þar sem 94 prósent eru á móti byggingu veggsins.

Andstaðan er svipuð við stöðu Trump gagnvart viðskiptasamningum, Parísarsáttmálans og Múslimabannsins svokallaða.

Þegar kemur að persónu forsetans segir meirihluti þeirra sem tóku þátt að hann sé hrokafullur, hann skorti umburðarlyndi og sé jafnvel hættulegur.

Þrátt fyrir viðhorf heimsbúa til forsetans er viðhorfið til almennra Bandaríkjamanna enn jákvætt. Að meðaltali segjast 58 prósent sjá Bandaríkjamenn í jákvæðu ljósi.

Merkel nýr leiðtogi frjálsa heimsins?

Könnunin kannaði einnig viðhorf til fólks til annarra þjóðarleiðtoga í heiminum. Þar kemur Angela Merkel, kanslari Þýsklands, vel út. 42 prósent segjast sjá hana í jákvæðu ljósi og 31 prósent eru neikvæð gagnvart henni.

Þeir Xi Jinping, forseti Kína, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, koma ekki jafn vel út úr könnunni. 28 prósent sjá Jinping í jákvæðu ljósi og 27 prósent þegar kemur að Putin.

Það sem vekur sérstaka athygli er að 60 prósent Evrópubúa sjá Merkel í jákvæðu ljósi og virðist hún sérstaklega vinsæl á vinstri væng stjórnmálanna þar. Þrátt fyrir að hún leiðir Kristilega demókrata, sem er hægri sinnaður flokkur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.