Erlent

Navalny dæmdur í þrjátíu daga varðhald fyrir að brjóta lög um mótmæli

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Navalny hyggst gefa kost á sér í embætti forseta Rússlands í kosningum sem fara fram á næsta ári.
Navalny hyggst gefa kost á sér í embætti forseta Rússlands í kosningum sem fara fram á næsta ári. Vísir/Getty
Rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny hefur verið dæmdur í þrjátíu daga varðhald fyrir að virða lög um mótmæli að vettugi. Navalny hafði boðað til mótmæla á Degi Rússlands og hvatti sem flesta til að mæta og mótmæla spillingu í landinu. Verjandi Navalny hafði biðlað til yfirvalda um að málið yrði látið niður falla. Því var hafnað.

BBC greinir frá því að Navalny hafi ætlað að mæta á mótmæli fyrri hluta mánudags .Ekki varð að því þar sem Navalny hefur verið í haldi lögreglu síðan snemma á mánudaginn í kjölfar mótmælanna. Á áttahundruð manns voru teknir af lögregluyfirvöldum á meðan mótmælunum stóð. Talið að um 5 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum.

Nokkur hundruð voru einnig í haldi lögreglu í St. Pétursborg en rúmlega þrjú þúsund manns mótmæltu þar. Val lögreglu er sagt vera handahófskennt.  

Svo virðist sem aðferðir lögreglu hafi ekki komið mótmælendum á óvart og í frétt BBC segir að fólk hafi, þrátt fyrir möguleg afskipti lögreglu, verið ákveðið í að ljá baráttunni rödd sína og mótmæla spillingunni.

Heyra mátti öskur á borð við „Pútín er þjófur!“ og „Rússland mun verða frjálst!“

Navalny hyggst gefa kost á sér í embætti forseta Rússlands í kosningum sem fara fram á næsta ári. Hann hefur verið ötull baráttumaður gegn spillingu stjórnvalda og sagt að breytinga sé þörf.

„Ég vil breytingar. Ég vil lifa í nútíma lýðræðisríki og ég vil að þeir skattar sem við greiðum fari í að laga vegi og styrkja mennta- og heilbrigðiskerfi í stað þess að styrkja smekkjukaup, vínekrur og hallir,“ er haft eftir Navalny.


Tengdar fréttir

Navalny handtekinn á heimili sínu

Fjölmenn mótmæli eru fyrirhuguð í Moskvu í dag, en ekki hafði fengist leyfi frá yfirvöldum og eru þau því ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×