Erlent

Anita Pallenberg er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Keith Richards, sonurinn Marlon og Anita Pallenberg.
Keith Richards, sonurinn Marlon og Anita Pallenberg. Vísir/Getty
Fyrirsætan og leikkonan Anita Pallenberg er látin, 73 ára að aldri. Hún er einna þekktust fyrir sambönd sín við liðsmenn bresku sveitarinnar Rolling Stones.

Stella Schnabel, dóttir málarans Julian Schnabel, greindi frá fráfalli Pallenberg á Instagram.

Pallenberg var kærasta Brian Jones, þáverandi forsprakka Rolling Stones, en byrjaði síðar með Keith Richards, gítarleikara sveitarinnar. Í frétt BBC segir að orðrómur hafi verið uppi um að Pallenberg hafi einnig átt í ástarsambandi við söngvarann Mick Jagger við upptökur á myndinni Performance árið 1970, þó að Pallenberg hafi ávallt neitað því.

Pallenberg fæddist í Róm árið 1944 og voru foreldrar hennar ítalskir og þýskir. Hún hitti fyrst Jones árið 1965 en byrjaði með Richards tveimur árum síðar. Jones átti svo átt að yfirgefa sveitina en lést árið 1969.

Pallenberg og Richards eignuðust saman þrjú börn, en eitt þeirra lést tveggja mánaða gamalt. Pallenberg og Richards hættu saman árið 1980.

Pallenberg söng meðal annars bakraddir við upptökur á lagi Stones, Sympathy for the Devil. Þá fór hún meðal annars með hlutverk í myndunum Barbarella og Mister Lonely.

Pallenberg var þekkt fyrir litríkan lífsstíl og hrifningu sína á svartagöldrum. Hún lætur eftir sig tvö börn og fimm barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×