Erlent

Trump segist vera til rannsóknar fyrir að hafa rekið Comey

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. vísir/getty
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, fór á Twitter fyrr í dag og staðfesti það að hann væri til rannsóknar vegna brottvikningar James Comey, fyrrverandi forstjóra Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, úr embætti.

„Maðurinn sem sagði mér að reka forstjóra FBI er núna að rannsaka mig fyrir að hafa rekið forstjórann! Nornaveiðar,“ segir Trump í tísti sínu.

Greint var frá því fyrr í vikunni að sérstakur saksóknari, Robert Mueller III, hefði hafið rannsókn á því hvort að Trump hefði mögulega hindrað framgang réttvísinnar. Ekki kom þá strax fram hvernig Trump átti mögulega að hafa brotið af sér en miðað við tíst forsetans nú snýst rannsóknin um brottrekstur Comey.

Að því er fram kemur á vef CNN er maðurinn sem Trump er að vísa til í tístinu Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, en hann mælti með því í minnisblaði til forsetans að reka Comey.

Það var síðan Rosenstein sem skipaði Mueller sem sérstakan saksóknara vegna rannsóknar á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra og meintum samskiptum einstaklinga úr kosningateymi Trump við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×