Erlent

Sex ný ríki kjörin í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Atli Ísleifsson skrifar
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar. Vísir/afp
Sex ný ríki munu taka sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna frá næstu áramótum. Þetta varð ljóst eftir atkvæðagreiðslu í allsherjarþinginu í gær.

Kjör Afríkuríkisins Miðbaugsgínu í ráðið hefur verið harðlega gagnrýnt af mannréttindasamtökum.

Miðbaugsgínea, Fílabeinsströndin, Kúveit, Pólland og Perú voru öll kjörin í ráðið í atkvæðagreiðslu gærdagsins og munu eiga sæti í ráðinu 2018 og 2019. Holland var auk þess kjörið til að taka sæti í ráðinu eftir að samkomulag náðist um að skipta tveggja ára kjörtímabili með Ítalíu.

Alls eiga fimmtán ríki sæti í öryggisráðinu, þar af fimm fastaríki sem öll hafa neitunarvald – Bandaríkin, Rússland, Kína, Bretland og Frakkland. Þá eiga tíu ríki einnig sæti í ráðinu en þau sitja í tvö ár í senn.

Ríkin sex sem kjörin voru munu taka sæti Egyptalands, Japan, Senegal, Úkraínu, Úrúgvæ og Ítalíu þann 1. janúar næstkomandi.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa gagnrýnt að Miðbaugsgínea taki sæti í ráðinu og segja landið glíma við „spillingu, fátækt og kúgun, en Teodoro Obiang Nguema forseti hefur setið þar á valdastóli frá árinu 1979.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×