Erlent

Þvertekur fyrir að búa yfir skaðlegum upplýsingum um Trump

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump og Vladimír Pútín.
Donald Trump og Vladimír Pútín. Vísir/Getty
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að hann hafi ekki yfir að búa neinum upplýsingum um Donald Trump, Bandaríkjaforseta, sem reynst gætu forsetanum skaðlegar. Hann segir sögusagnir þess efnis vera helber uppspuni.

Pútín var í viðtali við sjónvarpskonuna Megyn Kelly á NBC sjónvarpsstöðinni og spurði hún hann beint út hvort að hann búi yfir einhverjum skaðlegum upplýsingum um forsetann. „Þetta er enn ein vitleysan,“ svaraði forsetinn henni.

Yfirvöld í Rússlandi hafa ávallt þvertekið fyrir að búa yfir nokkrum upplýsingum um forsetann en sögusagnir þess efnis hafa verið háværar allt frá því að bandaríska alríkislögreglan greindi frá því að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum og að það hafi gagnast Trump.

Pútín tók fram að hann hefði aldrei á ævi sinni átt í samskiptum við Trump og að hann hefði aldrei hitt hann, þrátt fyrir að Trump hefði nokkrum sinnum ferðast til Rússlands á viðskiptaferli sínum. Hann segir að alríkislögreglan sem og leyniþjónustan í Bandaríkjunum hafi rangt fyrir sér varðandi afskipti Rússa af forsetakosningunum.

„Ég hef ekki getað séð að þessir aðilar hafi gefið upp einhverjar upplýsingar sem sanna með beinum hætti aðkomu rússneskra stjórnvalda að tölvuárásum gegn bandarískum stofnunum á síðasta ári.“

Rannsókn á tengslum starfsteymis Trump við Rússa er raunar í fullum gangi, bæði á vegum alríkislögreglunnar en líka þingnefndar fulltrúadeildarinnar og mun James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, mæta fyrir hana næstkomandi fimmtudag og svara spurningum um samskipti sín við forsetann.

Trump hefur ávallt neitað því að hafa átt í nokkrum samskiptum við Pútín og segir að starfsteymi sitt hafi á engum tímapunkti að honum vitandi verið í samskiptum við Rússa á meðan að kosningabaráttu hans stóð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×