Erlent

Reiðir Rússum fyrir myndbirtingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra, Donald Trump, forseti, og Sergey Kislyak, sendiherra.
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra, Donald Trump, forseti, og Sergey Kislyak, sendiherra. Vísir/AFP
Starfsmenn Hvíta hússins eru reiðir Rússum fyrir að hafa birt myndir frá lokuðum fundi Donald Trump, forseta, með þeim Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergey Kislyak, sendiherra, í gær. Starfsmenn Trump telja Rússa hafa spilað með sig.

Samkvæmt heimildarmönnum AFP fréttaveitunnar bað Vladimir Putin, forseti Rússlands, um fundinn eftir að hann fundaði með Rex Tilllerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Starfsmönnum Trump var tilkynnt að opinber ljósmyndari ríkisstjórnarinnar í Moskvu yrði með í för og enginn annar.

Myndirnar voru hins vegar birtar af Tass fréttaveitunni sem eru í eigu ríkisins. Því áttu starfsmenn Hvíta hússins ekki von á.

Fundurinn er talinn vera ákveðinn sigur fyrir Rússland. Það er að utanríkisráðherra landsins hafi farið á fund forseta Bandaríkjanna nokkrum mánuðum eftir að Bandaríkin setti viðskiptaþvinganir á Rússa vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum í fyrra.

Þá hefur fundurinn ekki hjálpað Donald Trump, en gagnrýnendur hans segja hann of náinn rússneskum stjórnvöldum. Alríkislögregla Bandaríkjanna rannsakar nú hvort að starfsmenn framboðs Trump hafi átt í samráði við Rússa varðandi afskipti þeirra af kosningunum.

Þar að auki hefur vera Sergey Kislyak á fundinum vakið furðu, en hann hefur verið tengdur meintu samráði framboðsins og Rússa. Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi, var rekinn eftir að hann sagði ósatt um fundi sína við KislyakJeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, þurfti að segja sig frá Rússarannsókninni eftir að hann sagði einnig ósatt um fundi sína við Kislyak.

Á myndunum sem Hvíta húsið birti af fundinum, eftir að Tass gerði það, var Kislyak hvergi sjáanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×