Erlent

Lavrov grínaðist með brottrekstur Comey í Washington

Atli Ísleifsson skrifar
Sergei Lavrov og Rex Tillerson í morgun.
Sergei Lavrov og Rex Tillerson í morgun. Vísir/AFP
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er mættur til bandarísku höfuðborgarinnar Washington þar sem hann mun funda með utanríkisráðherranum Rex Tillerson og Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Búist er við að málefni Sýrlands og Úkraínu verði til umræðu á fundunum.

„Ég vil bjóða utanríkisráðherranum velkominn í utanríkisráðuneytið og segja að ég kann að meta að hann hafi ferðast til Washington til að við getum haldið viðræðum okkar áfram sem við hófum í Moskvu,“ sagði Tillerson við fjölmiðla í morgun.

Tillerson var nýlega í rússnesku höfuðborginni þar sem hann ræddi meðal annars við Lavrov. Um er að ræða fyrstu heimsókn Lavrovs til Washington síðan í ágúst 2013.

Fundurinn á sér stað á sama tíma og mikið er rætt um afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum, en tilkynnt var um brottrekstur James Comey, yfirmann Bandarísku alríkislögreglunnar FBI, í gær. Ásakanir um afskipti Rússa hafa verið til rannsóknar hjá FBI.

Lavrov grínaðist þegar blaðamenn spurðu út í brottrekstur Comey. „Var hann rekinn?Þið hljótið að vera að grínast!“

Sjá myndband af atvikinu að neðan.


Tengdar fréttir

Comey hélt að brottreksturinn væri hrekkur

James Comey, sem rekinn var sem yfirmaður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, í gær af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hélt í fyrstu að fregnir af brottrekstrinum væri hrekkur. Hann var staddur í Los Angeles þegar fregnirnar bárust honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×