Erlent

Einn lét lífið á Everest í dag og annar er týndur

Samúel Karl Ólason skrifar
Everest fjall.
Everest fjall. Vísir/AFP
Bandarískur fjallgöngumaður lét lífið á leið upp Everest fjall í dag. Þá týndist indverskur maður á fjallinu í gær. Alls er staðfest að þrír haf látið lífið á einum mánuði. Eins og kunnugt er fór Vilborg Arna Gissurardóttir á topp fjallsins nú í nótt.

Sá sem lét lífið í dag hét Roland Yearwood. Hann var 50 ára gamall og frá Alabama. Hann dó í um 8.400 metra hæð en ekki liggur fyrir við hvaða aðstæður hann lét lífið, né hvort hann var á leið upp eða niður fjallið. Hann var í 16 manna teymi.

Hinn 26 ára gamli Ravi Kumar týndist í gær á svipuðum slóðum og Yearwood lét lífið. Hann varð viðskila við leiðsögumann sinn. Samkvæmt Reuters eru þrír sjerpar að leita hans á fjallinu.

Þann 30. apríl lést svissneski klifurgarpurinn Ueli Steck, sem var þekktur sem „Svissneska vélin“. Hann er sagður hafa fallið. Fyrr í þessum mánuði lést svo 85 ára gamall maður frá Nepal sem ætlaði sér að setja met og verða elsti maðurinn sem hefði komist á tind þessa hæsta fjalls heims.

Yfirvöld í Nepal hafa veitt 371 fjallgöngumanni/konu leyfi til þess að fara á tind Everest á þessu tímabili, sem lýkur í þessum mánuði.

Hillary-þrepið hrunið

Fyrr í vikunni staðfesti fjallgöngumaðurinn Tim Mosedale að Hillary-þrepið svokallaða hefði hrunið í jarðskjálftanum 2015. Fjallgöngumenn hefur grunað það frá því í fyrra, en snjór kom í veg fyrir að það gæti verið staðfest.

Um er ræða nærri tólf metra háan klettavegg sem var nærri toppi fjallsins. Hann var skírður eftir Edmund Hillary, sem var fyrsti maðurinn til að klífa hann árið 1953. Talið er að hruni Hillary-þrepsins muni gera fjallgöngumönnum auðveldara að fara yfir svæðið, en hins vegar gæti það reynst hættulegra þar sem auðveldara verði að festast þar.

Hér má sjá myndband af fjallgöngumönnum klifra upp Hillary-þrepið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×