Erlent

Þingmenn vilja hlutlausan aðila yfir FBI

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Þingmenn beggja flokka segjast vilja aðila sem tengist ekki stjórnmálum til að taka við stjórn Alríkislögreglu Bandaríkjanna, eða FBI. Forsetinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að reka James Comey, fyrrverandi yfirmann stofnunarinnar, á meðan FBI rannsakar mögulegt samstarf framboðs Trump og yfirvalda í Rússlandi í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra.

Meðal þess sem þingmenn, og þar á meðal Repúblikanar, er að Trump skipi einhvern sem þegar vinnur hjá FBI sem yfirmann stofnunarinnar. Þá hefur nafn Merrick Garland einnig komið upp. Hann var tilnefndur af Barack Obama, fyrrverandi forseta, til að taka sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Repúblikanar í öldungaþinginu neituðu hins vegar að hitta Garland og að íhuga að skipa hann í embættið.

Öldungaþingmenn Demókrata hafa gefið í skyn að þeir gætu reynt að koma í veg fyrir skipun nýs yfirmanns FBI nema að sérstakur saksóknari verði skipaður til að rannsaka möguleg tengsl Trump og Rússa. Sjálfur hefur Trump sagt að rannsókn FBI á þeim ásökunum er meðal ástæðna fyrir því að hann rak Comey.

Repúblikanar stjórna þó smáum meirihluta á öldungaþinginu, eða 52 á móti 48 sætum demókrata. Nýr yfirmaður FBI mun þurfa 51 atkvæði til að verða skipaður í embætti.

New York Times segja frá því að þingmenn Repúblikanaflokksins séu byrjaðir að reyna að fjarlægja sig frá Trump og vandræðum hans í Hvíta húsinu. Þeir óttist að óvinsældir forsetans muni koma niður á líkum þeirra til að halda sætum sínum í þingkosningum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×