Erlent

Bandaríska fulltrúadeildin samþykkti nýtt heilbrigðisfrumvarp

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það er teiti hjá Donald Trump í kvöld.
Það er teiti hjá Donald Trump í kvöld. Vísir/Getty
Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í dag nýtt heilbrigðisfrumvarp sem koma á í stað Obamacare löggjafarinnar svokölluðu, sem kennd er við Barack Obama fyrrverandi forseta. 

Frumvarpið var samþykkt með 217 atkvæðum gegn 213 og þýðir það að Repúblikanar geta nú sent frumvarpið til meðferðar í öldungadeild þingsins. Enginn Demókrati greiddi atkvæði með frumvarpinu.

Þetta þýðir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, færist einu skrefi nær því að framfylgja loforðum sínum um að knésetja Obamacare löggjöfina sem lengi hefur verið þyrnir í augum Repúblikana. 

Ljóst er þó að einungis hálfur sigur er unninn þar sem Repúblikanar hafa einungis nauman meirihluta í öldungadeildinni. Þeir eiga 52 sæti í deildinni af 100 sætum og því þarf ekki nema örfáa öldungadeildarþingmenn Repúblikana til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu til þess að koma í veg fyrir að það verði að lögum.

Demókratar vonast til þess að atkvæðagreiðslan í dag muni valda reiði kjósenda og valda þar með um leið dvínandi fylgi Repúblikana, í þingkosningum sem fara fram á næsta ári.

Á meðan atkvæðagreiðslan fór fram í dag tilkynnti Trump að hann hyggðist efna til veislu í Hvíta húsinu ef frumvarpið yrði samþykkt. Því er ljóst að það verður svo sannarlega teiti í Hvíta húsinu í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×