Erlent

Aldrei hafa fleiri reynt við Everest-tind

Atli Ísleifsson skrifar
Everest er 8.848 metra hátt.
Everest er 8.848 metra hátt. Vísir/EPA
Aldrei hafa fleiri lagt leið sína til Nepals í þeim tilgangi að reyna að komast á tind Everest, hæsta fjalls í heimi, en í ár. Alls hafa nepölsk yfirvöld úthlutað 371 leyfi til útlendinga til að reyna að komast alla leið.

Vilborg Arna Gissurardóttir er ein þeirra sem hyggst klífa tindinn og verða þar með fyrsta íslenska konan til að afreka slíkt, en þetta er í þriðja sinn sem hún reynir að komast á toppinn.

Sjerpar á fjallinu hafa barist við mikinn vind og snjókomu síðustu daga, sem hefur torveldað allan undirbúning að sögn Gyanendra Shrestha, talsmanns yfirvalda sem staddur er í grunnbúðunum.

Verið er að festa og tryggja reipi í um átta þúsund metra hæð á þeim stað áður en haldið er síðasta spölinn á tindinn. Talið er að þeir fyrstu munu reyna við tindinn á sunnudag.

Í frétt Washington Post segir að auk þeirra 371 útlendinga sem hafa fengið úthlutað leyfi til að klífa tindinn, eru jafn margir sjerpar sem munu fylgja þeim. Því er ljóst að það gæti orðið mjög margt um manninn og biðraðir myndast.

Alls fengu 289 fjallgöngumenn úthlutað leyfi á síðasta ári. Metfjöldi leyfa í ár er rakinn til þess að það voru margir sem sneru aftur í ár eftir að hafa þurft frá að hverfa árið 2014 og 2015. Leiðinni á tindinn var lokað árið 2015 eftir að nítján fórust og 61 slasaðist í snjóflóði sem varð vegna mikils jarðskjálfta í Nepal í maímánuði. Árið 2014 fórst sextán sjerpar í snjóflóði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×