Erlent

Rannsaka tengsl öfgamannna við sprengjuárásina í Dortmund

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einn leikmaður Dortmund slasaðist í árásinni.
Einn leikmaður Dortmund slasaðist í árásinni. Vísir/Getty
Lögregluyfirvöld í Þýskalandi rannsaka nú möguleg tengsl íslamskra öfgamanna við sprengjuárásina á liðsrútu þýska knattspyrnuliðsinn Borussia Dortmund í gær. BBC greinir frá.

Bréf sem fannst í grennd við vettvang árásarinnar er nú til rannsókknar en svo virðist sem í því sé lýst yfir ábyrgð á árásinni. Samkvæmt frétt Sueddeutsche Zeitung hefst bréfið á orðunum „Í nafni Allah“ auk þess sem að minnst er á þáttöku þýska hersins í baráttunni gegn ISIS.

Þykir það gefa til kynna að íslamskir öfgamenn séu að baki árásinni. Alríkissaksóknarar sem sérhæfa sig í rannsókn hryðjuverka hafa nú tekið yfir rannsókn málsins. Talið er að Dortmund-liðið hafi verið skotmark árásarinnar.

Óvíst er þó hvort bréfið sé ekta eður ei og er nú verið að rannsaka hvort að bréfið sé tilraun til þess að afvegaleiða rannsókn málsins. 

Sprengjuárásin var gerð á rútuna þegar liðið var á leið á Signal Iduna-leikvanginn í Dortmund þar sem það átti leik á móti franska liðinu Monaco í átta liða-úrslitum Meistaradeildarinnar. Leiknum var frestað þangað til í dag.

Einn leikmaður liðsins, spænski landsliðsmaðurinn Marc Bartra, var fluttur á spítala þar sem hann meiddist á hendi en aðra leikmenn Dortmund sakaði ekki.


Tengdar fréttir

Stuðningsmenn Dortmund sýndu Mónakó-fólkinu mikinn höfðingsskap

Ekkert varð að leik Borussia Dortmund og Mónakó í Meistaradeildinni í gærkvöldi eftir að sprengjur sprungu við rútu Borussia Dortmund á leiðinni í leikinn. Leiknum var frestað um sólarhring en það voru ekki bara slæmar fréttir frá Þýskalandi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×