Erlent

Sprengjuárásin í Dortmund: Telja að knattspyrnuliðið hafi verið skotmarkið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í kvöld.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í kvöld. vísir/getty
Þýska lögreglan telur að sprengjurnar þrjár sem sprungu við rútu knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund í kvöld hafi verið beint að liðinu sjálfu, það hafi verið skotmarkið.

Sprengjuárásin var gerð á rútuna þegar liðið var á leið á Signal Iduna-leikvanginn í Dortmund þar sem það átti leik á móti franska liðinu Monaco í átta liða-úrslitum Meistaradeildarinnar. Leiknum var frestað þangað til á morgun.

Einn leikmaður liðsins, spænski landsliðsmaðurinn Marc Bartra, var fluttur á spítala þar sem hann meiddist á hendi en aðra leikmenn Dortmund sakaði ekki. Rúður sprungu í rútunni við sprengingarnar og þá sprungu dekk rútunnar einnig.

Á blaðamannafundi í kvöld sagði lögreglan að fyrstu vísbendingar bentu til að þarna hefði verið gerð árás með hættulegum sprengiefnum. Þá sagði saksóknari að bréf sem fannst nærri vettvangi árásarinnar væri nú til rannsóknar en svo virðist sem í því sé lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Lögreglan vildi þó ekkert frekar tjá sig um innihald bréfsins fyrr en það hafi verið rannsakað frekar. Enginn hefur verið handtekinn grunaður um árásina.  

Formaður Borussia Dortmund Hans-Joachim Watzke sagði í samtali við fjölmiðla að liðið væri í áfalli vegna árásarinnar.

„Þú gleymir ekki svona hlutum svo glatt. Ég vona að liðið geti keppt á morgun en á stundum sem þessum þá þjappar Borussia sér saman.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×