Enski boltinn

Gylfi og Wayne Rooney gætu orðið samherjar hjá Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney í búningi Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney í búningi Everton. Mynf/@tundekay2003
Everton gæti styrkt liðið með tveimur athyglisverðum leikmönnum í sumar séu sögusagnirnar réttar um áhuga þeirra á enska landsliðsfyrirliðanum Wayne Rooney og íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni.

Dean Jones hjá Bleacher Report skrifaði um möguleikann á því að þeir Rooney og Gylfi klæðist báðir Everton-treyjunni á næsta tímabili og menn á Twitter eru þegar byrjaðir að klæða þá Rooney og Gylfa í Everton-búning eins og sést á Twitter-færslunni hér fyrir neðan.

Wayne Rooney ákvað að klára tímabilið með Manchester United þrátt fyrir mikinn áhuga frá kínverskum félögum og það lítur út fyrir að Rooney sé hikandi að flytja með fjölskylduna til Kína.

Þess í stað gæti það verið góður kostur fyrir Rooney að fara heim til Everton þar sem hann hóf ferill sinn á sínum tíma og sló í gegn kornungur. Dean Jones segir í grein sinni að Rooney sé hrifinn af því að eiga tveggja félaga feril.  Það væri líka falleg saga ef Rooney kæmi aftur heim á Goodison Park.

Stóra spurningin er hversu mikinn pening Everton þyrfti að greiða fyrir Rooney og því gætu samningarviðræður Everton og Manchester United ráðið miklum um hvort af verður. Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho er ekki með Rooney inn í framtíðaráætlunum sínum hjá Manchester United og kannski gæti félagið leyft sínum markahæsta leikmanni frá upphafi að fara fyrir lítið. Hann hefur vissulega skilað sínu þótt að hann hafi reyndar fengið ágætlega borgað fyrir.

Dean Jones nefnir líka áhuga Everton á Gylfa Þór Sigurðssyni. Everton gæti boðið allt að 25 milljónum punda í íslenska landsliðsmanninn. Heimildir hans herma að Gylfi sé mjög ofarlega á innkaupalistanum hjá Ronald Koeman og hefur verið orðaður við Goodison Park síðan síðasta sumar.

Hvort Gylfi og Wayne Rooney verði samherjar hjá Everton á næstu leiktíð verður að koma í ljós en það er allavega ljóst að það gæti orðið erfitt fyrir Swansea City að halda okkar manni eftir hans frábæru frammistöðu undanfarna fjórtán mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×