Innlent

Skipverjinn í fjögurra vikna varðhald

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í janúar síðastliðnum var í Héraðsdómi Reykjaness í dag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Hann hefur sætt varðhaldi og einangrun síðastliðnar sex vikur en einangrunarvist hans lauk síðasta þriðjudag.

Maðurinn, skipverji á togaranum Polar Nanoq, var leiddur fyrir dómara í fjórða sinn frá handtöku í dag. Hann var fluttur í fangelsið á Hólmsheiði í vikunni en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vildu fangelsismálayfirvöld ekki taka áhættu með öryggi mannsins, og því hafi verið ákveðið að flytja hann þangað, eftir einangrunarvistina á Litla-Hrauni.

Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi sagði í samtali við Vísi í morgun að maðurinn hefði verið yfirheyrður í vikunni, og að afstaða hans sé óbreytt. Verjandi mannsins, Páll Rúnar M. Kristjánsson, sagði á dögunum að skipverjinn haldi staðfastlega fram sakleysi sínu.

Ákæruvald lögreglu fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald degi eftir að maðurinn var handtekinn, hinn 18. janúar síðastliðinn. Þeirri kröfu var hins vegar hafnað af bæði héraðsdómi og Hæstarétti, og var maðurinn þá úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×