Erlent

Lögregla framkvæmir húsleit á heimili Fillon

atli ísleifsson skrifar
Lögregla í Frakklandi hefur gert húsleit á heimili forsetaframbjóðendans Francois Fillon. Le Parisien greindi frá þessu í kvöld.

Húsleitin er gerð í tengslum við rannsókn vegna gruns um að Repúblikaninn Fillon hafi ráðið eiginkonu sína og tvö börn sem aðstoðarmenn sína og þannig þegið laun úr opinberum sjóðum, án þess þó að hafa skilað eðlilegu vinnuframlagi.

Fillon greindi frá því fyrr í vikunni að saksóknarar hafi hafið opinbera rannsókn í málinu en að hann muni ekki draga framboð sitt til baka. Segir hann ásakanirnar gegn sér vera drifnar áfram af pólitískum andstæðingum sínum.

Fillon var áður forsætisráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy, en hann sigraði í forsetavali franskra Repúblikana í haust. Um tíma þótti hann líklegur til að bera sigur úr býtum í forsetakosningunum, en fylgi hans hefur dalað verulega á undanförnum vikum.

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fara fram þann 23. apríl en sú síðari 7. maí. Líklegast þykir að kosið verði milli hins óháða Emmanuel Macron og Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×