Erlent

Forsetaframbjóðandinn franski Francois Fillion til rannsóknar

Samúel Karl Ólason skrifar
Francois Fillion.
Francois Fillion. Vísir/EPA
Franski forsetaframbjóðandinn Francois Fillion hefur staðfest að opinber rannsókn sé hafin á hendur honum. Því hefur verið haldið fram að kona hans og tvö börn hafi fengið rúma milljón evrur úr opinberum sjóðum vegna starfa sem Fillion útvegaði þeim. Störfin eru sögð aðeins til á pappírnum en ekki í rauninni. Guardian greinir frá.

Fillion neitar að hafa gert eitthvað rangt og ætlar ekki að draga forsetaframboð sitt til baka. Hann segir eiginkonu sína hafa fengið laun fyrir að vera aðstoðarmaður hans á þingi.

Þá segir hann ásakanirnar gegn sér vera drifnar áfram af pólitískum andstæðingum og kallar eftir áframhaldandi stuðningi. Rannsóknin verður enn yfirstandandi þegar Frakkar ganga til kjörklefa þann 23. apríl.

Fylgið dalað verulega

Fillion var áður forsætisráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy, en hann sigraði í forsetavali franskra Repúblikana í fyrra. Um tíma þótti hann líklegur til að bera sigur úr býtum í forsetakosningunum, en fylgi hans hefur dalað verulega á undanförnum vikum.

Fyrr í morgun aflýsti Fillion kosningaviðburði og fóru vangaveltur af stað um að hann hefði látið undan þrýstingi innan flokksins um að hætta við framboð sitt.

Fjölmörg hneyksli hafa komið upp varðandi forsetakosningarnar á undanförnum mánuðum. Auk hneykslis Fillion þurfti sjálfstæðiframbjóðandinn Emmanuel Macron hefur þurft að verjast ásökunum um að hafa haldið fram hjá konu sinni með manni og Marine Le Pen er til rannsóknar, sökuð um að hafa borgað starfsfólki sínu ólöglega úr sjóðum Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×