Erlent

Halda rannsókn áfram á meintum spillingarbrotum Fillon

atli ísleifsson skrifar
Francois Fillon.
Francois Fillon. Vísir/AFP
Franskir saksóknarar munu halda áfram rannsókn sinni á meintri spillingu Francois Fillon, forsetaefnis franskra Repúblikana.

Fillon er sakaður um að hafa ráðið eiginkonu sína og börn sem aðstoðarmenn þegar hann sat á þingi, og þar með hafi þau fengið laun úr opinberum sjóðum, án þess að þau hafi skilað eðlilegu vinnuframlagi.

Í frétt SVT segir að á síðustu vikum hafi saksóknarar látið framkvæma forrannsókn á ásökununum, og að nú hafi verið greint frá því að ekki sé hægt að láta málið niður falla. Formleg rannsókn er þó ekki hafin.

Í yfirlýsingu frá saksóknurum segir að búið sé að safna sönnunargögnum og að ákvörðun hafi verið tekin um að halda rannsókninni áfram.

Fillon hefur áður sagst munu stíga til hliðar sem forsetaefni Repúblikana, taki saksóknarar ákvörðun um að hefja formlega rannsókn.

Fyrri umferð forsetakosninganna fara fram þann 23. apríl. Kosið verður milli tveggja efstu í síðari umferðinni þann 7. maí.

Skoðanakannanir benda til að Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, muni sigra fyrri umferð kosninganna en bíða lægri hlut í þeirri síðari. Líklegast þykir að þar muni miðjumaðurinn Emmanuel Macron standa uppi sem sigurvegari.


Tengdar fréttir

Styttist í kosningar

Marine le Pen hefur tvisvar áður boðið sig fram til forseta Frakklands en aldrei verið sigurstranglegri en einmitt nú. Skoðanakannanir spá henni fjórðungi atkvæða og þar með fyrsta sæti í fyrri umferð forsetakosninganna, sem verður haldin 23. apríl, en það tryggir henni þátttöku í seinni umferðinni hálfum mánuði síðar, þann 7. maí, þar sem kosið verður á milli tveggja efstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×