Erlent

Tom Hanks sendi blaðamönnum í Hvíta húsinu espressó-vél

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Espresso-vélin góða.
Espresso-vélin góða. Vísir/AFP
Óskarsverðlaunahafinn Tom Hanks hefur sent blaðamönnum sem starfa í Hvíta húsinu og fjalla um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, espresso-vél. Þetta er þriðja espressó-vélin sem Hanks gefur blaðamönnum sem hafa það að starfi að fjalla um forseta Bandaríkjanna. Guardian greinir frá.

„Til blaðamanna í Hvíta húsinu. Haldið áfram að berjast fyrir sannleikanum, réttlæti og bandarísku leiðinni, sérstaklega fyrir sannleikanum,“ stóð í bréfi frá Hanks sem fylgdi gjöfinni.

Espresso-vélin nýja kemur í stað þeirrar sem Hanks gaf blaðamönnum árið 2010 þegar hann tók eftir að espressó-vélin sem hann gaf árið 2004 var í slæmu ástandi vegna ofnotkunar.

Samband blaðamanna við ríkisstjórn Trump hefur verið stormasamt en stutt er síðan blaðamönnum New York Times, CNN og fleiri fjölmiðla var meinaður aðgangur að blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Þá hefur Trump tilkynnt að hann muni ekki mæta á árlegan kvöldverð blaðamanna innan Hvíta hússins. Verður það í fyrsta sinn í 36 ár sem að forseti lætur ekki sjá sig á þessum viðburði.

Hanks, sem studdi Hillary Clinton í forsetakosningum í Bandaríkjunum á síðasta ári, vonast væntanlega til þess að gjöf sín auðveldi blaðamönnum að vinna starf sitt.


Tengdar fréttir

Trump efast um tilvist heimildarmanna

Bandaríkjaforseti segir fjölmiðla skálda fréttir sem komi sér illa fyrir hann. Þá gefur hann sér einkunnina C fyrir það hversu vel skilaboð hans komast til skila. Hins vegar fær hann A fyrir vinnusemi og A+ fyrir árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×