Erlent

Morðið á Kim Jong Nam: Þurfa að sleppa Norður-Kóreumanni vegna skorts á sönnunargögnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan telur að Ri Jong Chol hafi komið að morðinu, en geta ekki sannað það. Hann verður fluttur til Kína og þaðan til Norður-Kóreu og hefur verið meinað að koma aftur til Malasíu.
Lögreglan telur að Ri Jong Chol hafi komið að morðinu, en geta ekki sannað það. Hann verður fluttur til Kína og þaðan til Norður-Kóreu og hefur verið meinað að koma aftur til Malasíu. Vísir
Lögreglan í Malasíu hefur þurft að sleppa eina manninum frá Norður-Kóreu sem hefur stöðu grunaðs manns vegna launmorðsins á Kim Jong Nam, hálfbróður Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Átta manns frá einræðisríkinu eru grunaðir um aðkomu að morðinu, en Ri Jong Chol er sá eini sem hefur verið handsamaður.

Lögreglan telur að hann hafi komið að morðinu, en getur ekki sannað það. Hann verður fluttur til Kína og þaðan til Norður-Kóreu en honum hefur verið meinað að koma aftur til Malasíu.

Kim Jong Nam var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur í síðasta mánuði. Tvær konur stöðvuðu hann á flugvellinum. Önnur tók um augu hans á meðan hin makaði vökva, sem þær töldu vera vatn eða barnaolíu, framan í hann. Þær segjast hafa haldið að þær væru að taka þátt í sjónvarpsgríni og þær hafi fengið tæpar tíu þúsund krónur fyrir.

Vökvinn var hins vegar VX-taugagas, sem er bannað um heim allan og skilgreint sem gereyðingarvopn af Sameinuðu þjóðunum.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hefur lögreglan í Malasíu nú lýst eftir Kim Uk Il, sem er flugfreyja frá Norður-Kóreu. Einnig hefur verið óskað eftir aðstoð frá aðstoðarsendiherra Norður-Kóreu í Malasíu. Talið er að bæði séu nú stödd í Malasíu, en fjórir til viðbótar eru taldir hafa flúið til Pyongyang á deginum sem morðið var framið.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekki viljað staðfesta að um Kim Jong Nam sé að ræða, en nágrannar þeirra í suðri halda því fram að hann hafi verið myrtur vegna skipanna bróður síns, sem litið hafi á hann sem mögulegan andstæðing um valdastólinn.

Háttsettur embættismaður Norður-Kóreu, sem leiðir hóp erindreka í Malasíu, hélt því fram í gær, eins og Pyongyang hefur gert frá upphafi, að Kim Jong Nam hafi fengið hjartaáfall og þvertók fyrir að taugaeitur hefði verið notað. Hann fór fram á að Malasía skilaði líkinu en Norður-Kórea hefur sakað yfirvöld í Malasíu um að starfa með andstæðingum sínum.

Malasía hefur kallað sendiherra sinn í Pyongyang heim aftur og bundið enda á frjáls ferðalög íbúa Norður-Kóreu til landsins.

Lögreglustjóri Kuala Lumpur segir vísbendingarnar og staðreyndir málsins tala sínu máli, sama hvað Norður-Kóreumenn segja.


Tengdar fréttir

Bróðurmorð og innflutningsbann

Furðufréttir berast enn frá Norður-Kóreu. Yfirvöld eru talin hafa látið myrða bróður leiðtoga ríkisins. Kínverjar sett innflutningsbann á kol frá ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×