Erlent

Reyndu að brjótast inn í líkhúsið þar sem lík Kim Jong-nam er

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kim Jong-nam var elsti sonur Kim Jong-il.
Kim Jong-nam var elsti sonur Kim Jong-il. Vísir/afp
Malasíska lögreglan segir að tilraunir hafi verið gerðar til þess að brjótast inn í líkhúsið þar sem lík Kim Jong-nam er en hann var myrtur á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur á mánudaginn í síðustu viku. Jong-nam er hálfbróðir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, en grunsemdir eru uppi um að norður-kóresk yfirvöld hafi fyrirskipað morðið á Jong-nam.

„Við vitum að einhverjir hafa gert tilraunir til að brjótast inn í líkhús spítalans svo við höfum þurft að gera ráðstafanir. Við viljum ekki að neinn eigi við nokkuð þar inni,“ er haft eftir lögreglustjóranum í Malasíu í frétt Guardian.

Jong-nam dó á leiðinni á spítala en hann hafði þá sagt frá því að kona hefði sprautað einhverjum efnum framan í hann. Í vikunni birtu fjölmiðlar myndband sem talið er að sýni morðið á honum en fjórir einstaklingar eru í haldi vegna málsins, tvær konur og tveir karlmenn.

Þá leita yfirvöld í Malasíu nú að þremur norður-kóreskum einstaklingum í tengslum við morðið, þar á meðal heldur háttsettum embættismanni sem starfar í sendiráði Norður-Kóreu í Kuala Lumpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×